Fréttir

 

May 25, 2012

Aðferðafræði við lánshæfismat á sértryggðum skuldabréfum

Samantekt

Aðferðafræði Reitunar við lánshæfismat á sértryggðum skuldabréfum byggir á lánshæfismati útgefanda og virði tryggingasafns skuldabréfanna við erfiðar markaðsaðstæður. Reitun gerir ráð fyrir að útgefandi greiði af sértryggðu skuldabréfunum samkvæmt skilmálum meðan hann er gjaldfær.

Aðferðafræðin skiptist í fjögur skref. Gjaldþrotslíkur útgefanda eru metnar í fyrsta skrefinu þar sem stuðst er við lánshæfismat útgefanda á almennum og óveðsettum kröfum (senior unsecured) og reynslu alþjóðlegra lánshæfismatsfyrirtækja á gjaldþrotstíðni. Sértryggðu skuldabréfin kunna að standa í skilum þrátt fyrir gjaldþrot útgefanda, en skiptastjóri gæti kosið að halda greiðslum í samræmi við skilmála áfram með stuðningi tryggingasafnsins. Komi til gjaldþrots útgefanda er gert ráð fyrir að árferðið sé slæmt og almennt álag á mörkuðum. Virði tryggingasafnsins í slæmu árferði er metið í skrefi tvö. Matið gerir ráð fyrir að raunlækkun húsnæðis á árunum 2008-2010 endurtaki sig. Þá er jafnframt tekið tillit til lágmarkstryggingaþekju samkvæmt skilmálum sértryggðu skuldabréfanna, og hugsanlegum endurheimtum úr þrotabúi útgefanda. Í þriðja skrefinu eru gjaldþrotslíkur útgefanda og virði tryggingasafnsins við erfiðar markaðsaðstæður notaðar til að meta vænt tap eigenda sértryggðu skuldabréfanna á hverju ári út líftíma skuldabréfanna. Vænt tap sértryggðu skuldabréfanna er svo fundið með því að núvirða vænta tapið á hverju ári. Í lokaskrefinu er vænt tap borið saman við reynslu erlendra lánshæfismatsfyrirtækja þar sem tillit er tekið til líftíma. Niðurstaðan er notuð til að meta lánshæfismat sértryggðu skuldabréfanna.

Ítarlegri upplýsingar er að finna hér: Lánshæfismat á sértyggðum skuldabréfum

Til baka