Fréttir

 

September 01, 2015

Vaxtaálag fyrirtækjaskuldabréfa og lánshæfiseinkunn

IFS Greining hefur hafið útgáfu á umfjöllun um fyrirtækjaskuldabréfamarkaðinn þar sem m.a. er lagt mat á vaxtaálag fyrirtækjaskuldabréfa eftir lánshæfiseinkunnum. Búið er að skoða vel á undanförnum misserum hvernig best er af þessu mati staðið. Vaxtaálagið er m.a. metið út frá þróun vaxtaálags í evrum og mismunandi stöðu efnahagsmála hér heima og í Evrópu. Stefnt er að útgáfu 2-3 sinnum í mánuði.

Hér fyrir neðan er að finna tvær greiningar frá IFS um vaxtaálagið.

Útgáfa 19. ágúst: pdf skjal

Útgáfa 28. ágúst: pdf skjal

Með þessu mati IFS er komið viðbótargagn af lánshæfiseinkunnum Reitunar og í raun búið að loka hringnum og hægt að nota til að byggja upp svipað umhverfi og þekkist á erlendum mörkuðum. Hlutverk lánshæfismatsfyrirtækja eins og Reitunar er að lánshæfismeta útgefanda og gefa honum einkunn. Einkunn segir til um greiðslufallslíkur og vænt tap út frá sögulegum upplýsingum. Sú matsgrind sem notuð er í lánshæfismati á að tryggja sem best samræmi milli einkunnar og greiðslufallslíkinda. Jafnframt gefur einkunnin sterka vísbendingu um hvert sanngjarnt vaxtaálag er á hverjum tíma. Erlendis er yfirleitt hægt að fletta upp í gagnagrunnum til að sjá hvað aðrir útgefendur með svipaða einkunn eru að fá í vaxtaálag en hér heima er slíku ekki fyrir að fara og þarf því að fara fram sérstakt mat sem IFS hefur nú tekið að sér og kemur því í stað gagnagrunnsins.

Rétt til að rifja upp að þá byggir einkunnargjöf Reitunar á landsbundnum einkunnarskala (e. national rating scale). Á alþjóðlegum markaði er hinsvegar notast við alþjóðlegan skala (e. international rating scale). Þar er áhætta og álag metið út frá bestu lántakendum í helstu myntum t.d. evrum og dollar. Þýska og franska ríkið eru því t.d. viðmið í evrum og Bandaríkin í dollar. Íslenska ríkið hefur undanfarin misseri verið með lélega lánshæfiseinkunn á alþjóðlegum markaði. Landsbundni einkunnarskalinn er því tilvalinn hér á landi þar sem saman fer léleg einkunn ríkissjóðs og sjálfstæð mynt. Ríkissjóður fær með þessari aðferð bestu mögulega einkunn og aðrir innlendir lántakendur endurmetnir út frá ríkissjóði. Sanngjarnari og eðlilegri mynd fæst þannig á áhættu á álag í stað þess að nota alþjóðlegan skala sem viðmiðun.

Vert er líka að minna á að lánshæfismat útgefenda á skuldabréfamarkaði er af hinu góða. Það hjálpar fjárfestum að meta fjárfestingarkostinn og verðleggja hann en einnig hjálpar það útgefendum með því að draga úr óvissu og fá þannig betri kjör en ella. Lánshæfiseinkunnir ættu líka að hjálpa til við að halda betur utanum markaðinn og áhættu þar sem með henni næst skilvirkari flokkun útgefenda í stað þess að byggja á fjöldanum án flokkunarkerfis.

Til baka