Fréttir

 

March 22, 2016

Lánshæfi Orkuveitu Reykjavíkur

Mat Reitunar á lánshæfi Orkuveitunnar er i.AA3 með stöðugum horfum. Lánshæfismatið hefur því hækkað um einn flokk, úr i.A1 í i.AA3.

OR er aftur að verða eitt stærsta og traustasta fyrirtæki landsins. Aðgerðir stjórnar og stjórnenda í að ná fyrri styrk hefur gengið samkvæmt áætlun og gott betur. Nú þegar hafa stórir áfangar náðst og allar forsendur eru að óbreyttu til staðar í að ná þeim markmiðum sem félagið stefnir að á næstu árum um lága skuldsetningu, sterkara lausafárhlutfall, minni markaðsáhættu og trausta rekstrarframlegð. Ytri umhverfisþættir hafa að mestu spilað með félaginu þar sem aukin ásókn er í endurnýjanlega orku og aukin eftirspurn er eftir heitu og köldu vatni. Margvísleg ný tækifæri til vaxtar eru því væntanleg á komandi misserum.

Einn mikilvægur áfangi náðist á síðasta ári þegar markmið Plansins voru uppfyllt ári áður en til stóð. Endurspeglar það vel þann góða og samstillta  árangur sem náðst hefur hjá félaginu á undanförnum árum. OR uppfærði í október 2015 rekstraráætlun sína til ársins 2021. Áframhaldandi aðhald í rekstri einkennir áfram uppfærða áætlun auk þess sem nýjar áskoranir felast í henni um hraðari og meiri styrkingu en áður. Reitun telur í ljósi þess árangurs sem náðst hefur og þeirri styrku og góðu samvinnu sem virðist vera milli stjórnar og stjórnenda að þessi nýuppfærða áætlun sé raunhæf og gott skref framávið. Þrátt fyrir góðan árangur er OR ekki enn búin að ná þeim styrk sem stefnt er að. Félagið er enn nokkuð skuldsett, bókfært lausafjárhlutfallið er enn undir einum og áfram býr félagið við allnokkra markaðsáhættu auk þeirrar rekstraráhættu sem einkennir félög í þeirri starfsgrein sem OR er í. Mikilvægt er því fyrir félagið að halda áfram að vinna eftir sínum áætlunum, beita kostnaðaraðhaldi og að stjórnendur njóti áframhaldandi trausts og svigrúms stjórnar.

Sjá má lánshæfismatið hér.

Til baka