Reitun hefur lokið við að vinna UFS birgjamat fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á helstu birgjum þeirra. Birgjarnir voru metnir eftir aðferðafræði í UFS sjálfbærnimati Reitunar og þeim gefin einkunn út frá sjálfbærnistöðu. Reitun hélt kynningarfund á niðurstöðum birgjamatsins fyrir stjórnendur OR þar sem farið var yfir stöðu helstu birgja OR í heild sinni sem og greint frá mismunandi stöðu birgjanna. Farið var yfir hvar helstu tækifæri OR liggja til að hafa jákvæð áhrif á aðfangakeðjuna sína sem og helstu áhættuþætti. OR fékk afhentar skýrslur með niðurstöðum fyrir hvern og einn birgja fyrir sig ásamt skýrslu um birgjana í heild með helstu niðurstöðum úttektarinnar.
Félög, líkt og OR, sem hafa unnið vel að sjálfbærnimálum í eigin starfsemi hafa mikil tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og eigin aðfangakeðju m.a. með því að miðla þekkingu og reynslu sinni áfram. Með UFS birgjamati Reitunar geta félög fengið góða mynd á stöðu einstaka birgja og aðfangakeðjunnar í heild. Þess háttar mat getur verið mikilvægt tól fyrir félög til að átta sig á hvar helstu áhættuþættir aðfangakeðjunnar liggja og hvernig best sé að styðja við og hvetja sína birgja til að standa betur að sjálfbærni.
Eiríkur Hjálmarsson, sjálfbærnistjóri OR, segir að fyrirtækin í Orkuveitusamstæðunni hafi lengi lagt mat á frammistöðu verktaka og annarra birgja út frá ýmsum sjónarmiðum, svo sem varðandi öryggismál starfsfólk þeirra og út frá umhverfismálum. „Með þessu samstarfi við Reitun sláum við nýjan tón eða nýjan og breiðari hljóm, má segja. Við fáum í senn gleggri upplýsingar um stöðu og afstöðu þessara samstarfsaðila okkar sem birgjarnir eru og sjáum hvar við getum átt sameiginleg sóknarfæri til að bæta heiminn,“ segir Eiríkur.
Hægt er að hafa samband við [email protected] eða í síma 533 4600 fyrir nánari upplýsingar birgjamöt Reitunar.
Comments