top of page

Landsbankinn og Landsbréf taka innleiðingu ábyrgra fjárfestinga á næsta stig


Samningur undirritaður við Reitun um UFS reitun

Reitun ehf., Landsbankinn og Landsbréf hafa skrifað undir þjónustusamning um kaup Landsbankans og Landsbréfa á framkvæmd UFS reitunar (e. ESG rating) á útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna.

Landsbankinn og Landsbréf hafa sett sér metnaðarfulla stefnu um ábyrgar fjárfestingar en ábyrgar fjárfestingar eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum sem og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir. Markmiðið er að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Markmiðið með samningnum er að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig og halda þannig áfram þeirri vegferð sem bankinn og dótturfélag hans, Landsbréf, hafa markað sér undanfarin ár.

UFS reitun hefur verið samstarfsverkefni Reitunar, Klappa - grænna lausna og Þrastar Olaf Sigurjónssonar, dósents hjá HÍ, sem snýst um að byggja upp og þróa UFS reitun fyrir innlendan markað. Mikill vöxtur hefur verið í slíkum reitunum erlendis við fjárfestingarákvarðanir og innlendir fjárfestar eru að tileinka sér þær hratt. UFS reitun leggur mat á hvernig fyrirtæki standa sig í þeim þáttum sem lúta að UFS og með þeim hætti er hægt að sjá styrkleika sem og veikleika þeirra þátta ásamt einkunnum og samanburði við aðra. Þjónusta Reitunar varðandi UFS reitun mun byggja á stafrænum lausnum ásamt hefðbundinni greiningarvinnu.

Ólafur Ásgeirsson, stofnandi og eigandi Reitunar ehf., segir að samningurinn sé afar ánægjulegur og að það sé jákvætt að Landsbankinn og Landsbréf stígi nú þetta skref með Reitun. „Við höfum lengi talið að þörf væri á þjónustu sem þessari hér á okkar heimamarkaði og hlökkum til samstarfsins. Við munum leggja okkur sem best fram um að stuðla að því að bankinn og Landsbréf nái settum markmiðum með samningunum.“

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, og Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, segja samninginn vera mikilvægt skref í þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð varðandi ábyrgar fjárfestingar. „Við settum okkur metnaðarfulla stefnu varðandi ábyrgar fjárfestingar strax á árinu 2013 og höfum síðan þá innleitt þá stefnu í fjárfestingarákvarðanir. Þessum þjónustusamningi er ætlað að gera þá vinnu skilvirkari og faglegri miðað við nýjustu viðmið á hverjum tíma.“

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page